Fimmtudaginn 25. október fagnaði leikskólinn Laufásborg í Þingholtunum 60 ára afmæli sínu. Að frumkvæði Laufásborgar var Miðstöð munnlegrar sögu á staðnum og tók viðtöl við núverandi og fyrrverandi starfsmenn og gesti sem kynnst hafa starfseminni. Með tilkomu Laufásborgar „fjölgaði plássum fyrir börn á leikskólum og dagheimilum í Reykjavík um helming“, segir í ritinu Hamingjuhöllin (bls. 4), sem Björk Þorleifsdóttir sagnfræðingur hefur tekið saman í tilefni afmælisins. Titillinn vísar bæði til þess góða andrúmslofts sem ríkir á leikskólanum og hússins, sem er einkar glæsilegt. Stofnun Laufásborgar var merkilegt framtak og baráttumál frumkvöðla á sviði dagvistarmála í borginni, ekki síst kvenna. Frumkvöðlaandinn svífur ennþá yfir vötnum á Laufásborg því Hjallastefnan hefur um árabil séð um rekstur leikskólans.

Hér er hlekkur á afmælisrit Bjarkar í rafrænu formi:

http://issuu.com/leikskolinnlaufasborg/docs/hamingjuhollin

Meðfylgjandi myndir eru fengnar hjá leikskólanum Laufásborg.

Það var mikið um að vera á afmælishátíðinni. Hér eru leikskólastjórarnir, Matthildur Laufey (t.v.) og Jensína Edda Hermannsdætur, með Jóni Gnarr borgarstjóra.

Sigrún Sigurðardóttir, fyrrverandi leikskólastjóri á Laufásborg, í viðtali hjá Arnþóri Gunnarssyni, verkefnisstjóra Miðstöðvar munnlegrar sögu.

Ingibjörg Hannesdóttir, fyrrverandi starfsmaður Laufásborgar, og Margrét Pála Ólafsdóttir, fræðslustjóri Hjallastefnunnar ehf., voru meðal viðmælenda Miðstöðvarinnar.

Björk Þorleifsdóttir sagnfræðingur, Sturla Friðriksson erfðafræðingur og Matthildur Laufey leikskólastjóri. Faðir Sturlu, Friðrik Jónsson, byggði Laufásborg upp úr 1920 ásamt Sturlu bróður sínum. Þeir bræður voru kunnir athafnamenn á sínum tíma.

Leikskólabörnin á Laufásborg ásamt starfsfólki.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar