Laugardaginn 1. mars býður Miðstöð munnlegrar sögu upp á námskeið þar sem munnleg saga og helstu aðferðir hennar verða kynntar. Áhersla er lögð á að leiðbeina þátttakendum um það hvernig best er að standa að undirbúningi, töku og úrvinnslu viðtala. Þátttakendur fá þjálfun í viðtalstækni, töku viðtals og aðgæslu upptökugæða. Námskeiðið er ætlað bæði byrjendum og þeim sem dýpka vilja þekkingu sína á munnlegri sögu og aðferðum hennar.

Námskeiðið verður kennt í Þjóðarbókhlöðu og er fjöldi þátttakenda takmarkaður við fimmtán. Þátttökugjald er 15.000 krónur en 10.000 krónur fyrir námsmenn. Innifalið í verði eru kennslugögn og kaffiveitingar í hléi fyrir og eftir hádegi. Kennari á námskeiðinu er Unnur María Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi verkefnisstjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu.

Dagskrá námskeiðsins er sem hér segir:

10:00–11:30 Hvað er munnleg saga?

Saga aðferðarinnar verður rakin og sérkenni hennar í samanburði við aðrar sagnfræðilegar aðferðir rædd. Vikið verður að notkun munnlegra heimilda innan annarra fræðigreina og tæpt á helstu kenningum um minnið. Staða munnlegrar sögu hérlendis verður rædd.

11:45–13:00 Undirbúningur viðtals og tækjabúnaður

Farið er yfir helstu atriði sem skipta máli þegar viðtal eða röð viðtala eru undirbúin. Leiðbeint verður um það hvernig nálgast má væntanlega viðmælendur. Tækjabúnaður og rétt beiting hans verður kynnt.

13:00–14:00 Hádegishlé

14:00–15:30 Viðtalstækni

Hvað felst í góðri viðtalstækni og hvað einkennir góðan spyril? Eftir hverju er hlustað og hvernig? Þátttakendur munu spreyta sig á töku viðtals.

15:45–17:00 Eftir viðtalið

Hvernig er best að haga úrvinnslu, frágangi og varðveislu viðtalsins. Hvernig skal skrifa útdrátt úr viðtali, hvað felst í uppskrift viðtals og hvenær á hvor aðferðin við?  Kynnt verða forrit sem gagnast við úrvinnslu viðtala. Höfundaréttur og siðleg viðmið munnlegrar sögu verða skýrð.

Halldóra Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu, veitir allar nánari upplýsingar og tekur við óskum um skráningu í síma 525-5775 eða í gegnum tölvupóst, munnlegsaga[hja]landsbokasafn.is. Frestur til skráningar rennur út föstudaginn 21. febrúar. Lágmarksfjöldi þátttakenda er tíu.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar