Þrjár íslenskar fræðikonur sóttu pólsku borgina Wrocław heim fyrstu helgina í desember og töluðu á alþjóðlegu ráðstefnunni Oral History – Usage and methodology, sem þar var haldin 4. desember. Þetta voru þær Helga Ólafsdóttir, María Jóhönnudóttir Smáradóttir og Unnur María Bergsveinsdóttir. Helga sagði frá viðtalsverkefni sem hún hefur unnið ásamt Önnu Wojtynska, en verkefnið fjallar um pólska konu og upplifun hennar af íslenskum veruleika og samfélagi. María fjallaði um stöðu munnlegrar sögu á Íslandi og Unnur María sagði frá Miðstöð munnlegrar sögu og stöðu munnlegra heimilda á Íslandi. Alls fluttu 13 fræðimenn erindi og komu þátttakendur frá Íslandi, Póllandi og Tékklandi.

Ráðstefnan er hluti af verkefninu Oral history - cultural heritage Polish and Iceland captured in human words en verkefnið styður við notkun munnlegrar sögu sem aðferðar til að rannsaka og styrkja menningarleg tengsl Íslendinga og Pólverja ásamt því að skapa vettvang þar sem fræðimenn frá mismunandi Evrópulöndum geta komið saman og rætt aðferðafræði munnlegrar sögu og not hennar.

Ráðstefnan er seinni hluti verkefnisins en sá fyrri er titlaður Poles in Iceland. Sá þáttur snerist um töku viðtala, undir formerkjum munnlegrar sögu, um upplifun Pólverja sem búsettir eru á Íslandi og kynni Íslendinga af aðfluttum Pólverjum og pólskri menningu. Viðtölin voru tekin á Íslandi í ágúst 2015 af hópi ungra fræðimanna frá báðum löndunum. Viðtölin og niðurstöður þeirra voru kynnt á sýningu sem opnaði 4. desember á Salttorginu í Wrocław og á vef samtímis.

Að verkefninu standa menningarmiðstöðin Rememberance and Future Centre í Wrocław og Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt á Íslandi. Verkefnið er hluti af prógramminu „Promotion of Diversity in Culture and Arts within European Cultural Heritage“ og er fjármagnað með styrkjum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi í gegnum styrkjakerfi EFTA ásamt styrkjum frá pólskum aðilum.

Hér má sjá sýninguna: http://poland-meets-iceland.eu/our-gallery/wystawa/#prettyPhoto

(Vefsíða verkefnisins er því miður öll á pólsku.)

 

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar