Aðstandendur

Vorið 2005 hófst samstarf Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK), Kennaraháskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um að koma á fót Miðstöð munnlegrar sögu. Þessar stofnanir voru einhuga um að brýnt væri að hefja átak í söfnun, varðveislu og miðlun munnlegra heimilda og auka veg munnlegrar sögu sem aðferðar í sagnfræði. Samstarf áðurgreindra stofnana var bundið með formlegum hætti með samstarfssamningi sem undirritaður var 7. júní 2006 og endurnýjaður í árslok sama ár.


Haustið 2006 voru ráðnir tveir starfsmenn, Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur, og Unnur María Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur, til að vinna að undirbúningi og starfsmótun Miðstöðvarinnar. Lengst af síðan hefur Miðstöðin verið rekin fyrir sjálfsaflafé og hefur notið styrkja frá nokkrum aðilum. Þar ber helst að nefna menntamálaráðuneyti, Alþingi og Háskóla Íslands.


Þegar Kennaraháskólinn sameinaðist Háskóla Íslands árið 2008 varð menntavísindasvið HÍ aðili að Miðstöð munnlegrar sögu. Þann 15. mars 2012 urðu tímamót í starfsemi Miðstöðvarinnar þegar hún var sameinuð Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Miðstöðin er nú sérstök eining á sviði varðveislu og stafrænnar endurgerðar. Hlutverk Miðstöðvarinnar breytist ekki við sameininguna en í stað stjórnar kemur fagráð sem tekur þátt í stefnumótun, verður ráðgefandi um verkefnaval og fagleg málefni og kemur að öflun sértekna til einstakra verkefna.

 

Árið 2015 var gerð breyting á skipan fagráðs. Fækkað var úr fimm meðlimum í þrjá og nýtt fagráð skipað til þriggja ára. Frá vori 2015 sitja í fagráðinu  Guðni Th. Jóhannesson, formaður, fyrir hönd Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Unnur María Bergsveinsdóttir, fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands og Örn Hrafnkelsson, fyrir hönd Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

 
Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar