Borgarbörn

Borgarbörn er fyrsti áfangi söfnunarverkefnisins Reykjavíkursögur. Hér að neðan má finna brot úr frásögnum einstaklinga sem ólust upp í Reykjavík. Hægt er að hlýða á frásagnirnar í heild sinni í miðstöð Munnlegrar sögu.

Reykjavíkursögur - Borgarbörn

Júní 1972, blokkir í Efra-Breiðholti í byggingu, sennilega Fellahverfi. Kona á gangi með barnavagn og tvö börn. Ljósmyndari ókunnur. Ljósmynd fengin af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Í sístækkandi borg

Fólki fjölgaði ört í Reykjavík eftir síðari heimsstyrjöldina. Ný hverfi byggðust upp með ógnarhraða og fylltust börnum sem komu allsstaðar að. Göturnar voru ómalbikaðar og nýbyggingarnar spennandi. Smellið hér til að heyra frásagnir af því hvernig það var að alast upp á slíkum stað.

Börn vaða í sjónum. Ljósmyndari Pétur Thomsen, tökudagur 1960-1970. Ljósmyndin fengin af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Ævintýri í borgarumhverfi

Útileikir í stórum hópi jafnaldra eru ofarlega í huga eldri borgarbarna. Borgarumhverfið rammaði inn tómstundir barnanna sem með ímyndunaraflinu endursköpuðu reykvískar götur og garða. Lítið var um skipulagða afþreyingu og á kvöldin hlýddu fjölskyldur um land allt saman á útvarpið, einnig þær reykvísku. Smellið hér til að heyra af því hvernig borgarbörnin létu daginn og kvöldið líða.

Ljósmyndari Magnús Ólafsson. Myndin er tekið árið 1930 og sýnir stúlku með hryggskekkju. Mynd fengin af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Heilbrigð sál í hraustum líkama

Eldri viðmælendur minntust þess að í skólanum hefði áherslan á aga verið mikil. En börnin áttu ekki aðeins að læra lexíur og prúðmennsku heldur var reynt að stuðla að auknu líkamlegu heilbrigði nemenda. Læknar og hjúkrunarkonur skoðuðu börnin reglulega, lýsi var hellt upp í þau úr stórri könnu, fölir krakkar sendir í ljósaböð og þeir sem á þurftu að halda sendir í fóta- og hryggæfingar. Smellið hér til að hlýða á frásagnir af slíkri upplifan.

Togarinn Maí með metafla. Ungir strákar aðstoða við að landa aflanum Ljósmyndari Hjörtur, tökudagsetning 12. júní 1964. Ljósmynd fengin af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Vinnan skapar manninn

Fyrir rúmri hálfri öld var það almenn skoðun að vinna væri börnum holl. Börnin í borginni seldu blöð, breiddu saltfisk, unnu sem sendlar, pössuðu yngri systkini sín og á sumrin voru mörg þeirra send í sveit þar sem þau áttu að læra að vinna. Í dag er vinnan ekki snar þáttur í lífi barna en flest hafa Reykjavíkurbörnin þó meira en nóg við að vera. Smellið hér til að heyra um reynslu borgarbarna af vinnu og skyldustörfum.

Nóvember 1971, Breiðholt, Asparfell. Ljósmyndari ókunnur. Ljósmynd fengin af Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Hættulegir leikir

Mörg borgarbarnanna eiga minningar um spennandi atburði og ævintýri í Reykjavík. Borgin gat verið hættuleg og oft voru börn og foreldrar ósammála um það hvar skyldi leikið og hvernig. Smellið hér til að heyra frásagnir Reykjavíkurbarna af spennandi atburðum og hættulegum leiksvæðum.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar