Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi

Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Mikael Fransson

Mikael Fransson fæddist í Ungverjalandi árið 1935. Árið 1956 kom hann ásamt hópi flóttafólks til Íslands og hefur búið hér síðan. Mikael hefur lengst af starfað sem auglýsingateiknari og hönnuður og var brautryðjandi á því sviði hér á landi. Árið 1961 kvæntist hann Kristjönu Birgis og eiga þau tvær uppkomnar dætur. Mikael býr nú ásamt eiginkonu sinni í efra Breiðholti og hefur útsýni bæði til austurs og vesturs.

Mikael Fransson

Í viðtali við Sigrúnu Sigurðardóttur og Unni Maríu Bergsveinsdóttur segir Mikael Fransson frá lífi sínu á Íslandi, æskunni í Ungverjalandi og þeim atburðum sem urðu þess valdandi að hann yfirgaf heimaland sitt og settist að hér á hjara veraldar. Viðtalið fór fram á heimili Mikaels að Ugluhólum þann 9. janúar 2007.

Miklos Tölgyes fæddist í Ungverjalandi 17. október 1935. Í dag býr hann á Íslandi og heitir Mikael Fransson. Mikael kom hingað til lands á Þorláksmessu árið 1956 í hópi 52 flóttamanna sem höfðu fengið pólitískt hæli á Íslandi. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenska ríkisstjórnin bauð flóttamönnum til landsins. Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem Mikael hafði orðið að flýja land. Í síðari heimsstyrjöldinni var Ungverjaland milli tveggja elda. Þjóðverjar og Sovétmenn börðust um yfirráð í Mið-Evrópu. Ungverja  börðust með Þjóðverjum gegn Sovétmönnum í stríðinu. Árið 1944 tóku fasistar við stjórn í Ungverjalandi og í kjölfarið var gert lokaátak í að senda alla gyðinga í landinu til Þýskalands, pólitískir andstæðingar voru handteknir og allir tiltækir karlmenn skráðir í herinn. Loftárásir Bandamanna á Búdapest urðu ofsafengnari og í desember 1944 hafði sovéski herinn náð borginni á sitt vald. Faðir Mikaels lést árið 1944 og móðir hans sá þann kost vænstan að flýja land með börnin sín tvö. Þau leituðu skjóls í litlum bæ rétt við Salzburg í Austurríki en snéru til baka til heimalandsins eftir að stríðinu lauk vorið 1945.

Eftir dvölina í Austurríki flutti fjölskylda Mikaels til ömmu hans og afa við Balatónvatn. Fjórtán ára gamall flutti Mikael með móður sinni og systur til Búdapest. Sex árum síðar var hann kallaður til herþjónustu. Þann 23. október 1956 braust út uppreisn í Ungverjalandi. Byltingin hófst friðsamlega með göngu stúdenta sem mótmæltu ítökum Sovétmanna í Ungverjalandi og kröfðust pólitískt frelsis og efnahagslegra umbóta. Stúdentarnir kröfðust þess jafnframt að Imre Nagy sem vikið hafði verið frá völdum árið á undan tæki við völdum á ný. Uppreisn stúdentana mætti harðri andstöðu sitjandi ríkisstjórnar og þann 25. október kom til harða átaka milli uppreisnarmanna og sovéskra hermanna sem skutu bæði á fólk og byggingar úr skriðdrekum.

Smellið hér til að hlusta á Mikael segja frá því hvernig það var að vera hermaður í ungverska hernum í miðri ringulreið uppreisnar

Herskírteini Mikaels

Mikael átti aðeins eftir nokkrar vikur í herþjónustu þegar byltingin braust út. Þær vikur reyndust örlagaríkar. Hermenn, verkamenn, stúdentar, konur og karlar börðust á götum úti. Mikael segir hér frá lífi hermannsins:

Uppreisnin í Ungverjalandi
Um miðjan nóvember hafði sovéska hernum að mestu tekist að brjóta uppreisnina á bak aftur. Friður komst þó ekki á fyrr en nokkrum vikum síðar. Heimildum ber ekki saman um hversu margir létu lífið í uppreisninni en talið er að 3000-10.000 Ungverjar hafi fallið. Að minnsta kosti 200.000 Ungverjar flúðu land. Þann 2. desember 1956 flúði Mikael frá Búdapest og yfir landamærin til Austurríkis. Með honum í för var hópur fólks, konur, börn, gamalt fólk og ungir karlmenn. Mikael segir hér frá aðdraganda þess að hann fór með hópnum yfir til Austurríkis og lýsir flóttanum sjálfum:

Mikael leiddi hópinn yfir landamærin. Þegar hann taldi þau vera komin á öruggt svæði skreið hann upp á veg og sá bílljós í fjarska. Þegar bíllinn færðist nær sá hann að þetta var herbíll. Mikael á erfitt með að lýsa þeirri tilfinningu sem gagntók hann þegar hann sá í bjarma ljóssins að á bílnum var austurrískt númer. Flóttafólkið stöðvaði bílinn og gaf sig fram við hermennina. Mikael gekk upp að einum þeirra og rétti fram skammbyssu sína. Skammbyssan var það eina sem hann hafði haft með sér á flóttanum ef frá eru talin fötin sem hann stóð í og skírteini hans úr hernum. Austurríski hermaðurinn var tregur til að taka við byssunni. Mikael gat hins vegar ekki hugsað sér að bera hana lengur. Hún var tákn fyrir allt það sem hann hafði flúið. Hann þrýsti byssunni í hendi austurríska hermannsins og varpaði öndinni léttar. Þrátt fyrir að léttirinn væri mikill voru tilfinningarnar tregablandnar. Hinum megin við landamærin var allt það sem honum var kunnuglegt. Landið, tungumálið, menningin, vinirnir og fjölskyldan voru hluti af veruleika sem nú tilheyrði fortíðinni.

Austurrísku hermennirnir fluttu flóttafólkið í gamla herstöð rétt fyrir utan Vín. Hér lýsir Mikael aðbúnaðinum í flóttamannabúðunum.

Smellið hér til að hlusta á Mikael segja frá aðstæðum í flóttamannabúðunum

Mikael hafði óskað eftir að fá pólitískt hæli í Kanada. Honum var hins vegar tjáð að biðin eftir því að komast til Kanada gæti verið allt að þrír mánuðir. Þá féllust honum hendur. Hann fann að hann hélst ekki við í flóttamannabúðunum öllu lengur. Þegar hann sá tilkynningu frá Rauða krossi Íslands um að íslenska ríkið væri tilbúðið að taka á móti flóttafólki var hann ekki seinn á sér að skrá sig. Auglýsingin hafði hins vegar ekki höfðað til margra enda vissi fólk lítið um Ísland. Mikael var sá eini sem skráði sig.

Dr. Gunnlaugur Þórðarson, sem var aðalhvatamaður þess að Íslendingar tækju á móti flóttamönnum frá Ungverjalandi, var staddur í flóttamannabúðunum og hafði það hlutverk að velja úr þá 52 flóttamenn sem fengu að fara til Íslands. Að lokum hafði honum tekist að raða saman hópnum. Í honum var aðallega ungt fólk en einnig eldra fólk og tvö ung börn. Flestir þeir sem voru í hópnum sem flúði með Mikael yfir landmærin komust einnig með í hópinn sem flaug til Íslands þann 23. desember 1956. Það voru blendnar tilfinningar sem bærðust með fólki þegar í flugvélina var komið, söknuður eftir fortíðinni og óvissa um framtíðina að viðbættri hræðslu við hið ókunnuga en fæstir þeir sem voru í hópnum höfðu nokkru sinni áður komið í flugvél. Mikael segir svo frá:

Hópurinn lenti á Íslandi í slagveðurskulda að kvöldi Þorláksmessu. Fyrstu dagana dvöldu þau að Hlégarði í Mosfellssveit, sváfu þar á dýnum á gólfinu og klæddust fötum sem Rauði krossinn útvegað þeim. Í byrjun janúar 1957 hafði tekist að útvega flestum karlmönnunum vinnu og flóttafólkið fékk aðstoð við að finna leiguhúsnæði. Mikael fékk vinnu við að leggja símalínur í Kópavogi og líkaði ágætlega þrátt fyrir kuldann. Hann reyndi að bjarga sér sem mest á íslensku, fór í bíó með félögum sínum frá Ungverjalandi þegar færi gafst og lagði sig fram við að aðlagast samfélaginu. Rúmlega ári eftir komuna til landsins fékk hann vinnu hjá SÍS í Austurstræti sem þá hafði opnað fyrsta stórmarkað landsins. Mikael vann til að byrja með á lager verslunarinnar en stuttu fyrir páska var hann beðinn um að aðstoða við að hanna auglýsingaspjöld með páskakjúklingum. Mikael hafði teiknað mikið og málað allt frá því að hann var barn. Hann átti því ekki í vandræðum með að töfra fram nýstárlegt auglýsingaspjald með mið-evrópskum kjúklingi sem sló rækilega í gegn. Nú varð ekki aftur snúið. Mikael var fljótlega kominn í fullt starf við að hanna auglýsingar og útstillingar fyrir SÍS. Hann starfaði hjá Sambandinu í meira en tuttugu ár en opnaði síðar eigin auglýsingastofu. Nú er hann kominn á eftirlaun en teiknar og hannar hluti enn í frístundum. Mikael og Kristjana fluttu fyrir stuttu úr einbýlishúsi í fallega blokkaríbúð í Breiðholti. Þegar viðtalið er tekið eru þau nýlega komin úr heimsókn til Ungverjalands þar sem systir Mikaels býr enn. Mikael sest í hægindastól og flytur okkur hugleiðingar um líf sitt. Þær geturðu hlustað á hér:

Mikael Fransson

Árið 1951 undirrituðu 26 ríki Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna (Convention and Protocol relating to the status of refugees). Samningurinn tók þó ekki formlega gildi fyrr en árið 1954. Stefna Íslands í málefnum flóttamanna, líkt og annarra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, mótast af samningnum frá árinu 1951 og viðbætum sem gerðar voru á honum árið 1967. Samkvæmt Flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna telst sá vera flóttamaður sem er utan heimalands síns og er ofsóttur vegna kynþáttar, trúar, þjóðernis, aðildar að sérstökum félagsmálaflokkum eða vegna stjórnmálaskoðana sinna. Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) voru í lok árs 2004 rúmlega 9,2 milljónir flóttamanna í heiminum. Þessi tala segir þó aðeins hálfa söguna því álitið er að á sama tíma hafi verið allt að 25 milljónir manna á flótta í eigin heimalandi. Alls eru því meira en 35 milljónir flóttamanna í heiminum. Aðeins hluti þeirra nýtur alþjóðlegrar verndar eða aðstoðar.

Árið 1956 komu fyrstu flóttamennirnir til landsins í boði íslensku ríkisstjórnarinnar. Um var að ræða 52 flóttamenn frá Ungverjalandi sem flestir höfðu orðið að flýja land vegna stjórnmálaskoðana sinna. Líkt og þúsundir annarra Ungverja sem yfirgáfu heimaland sitt á þessum tíma höfðu margir í hópnum tekið þátt í uppreisninni í Búdapest í október og nóvember 1956 en henni lauk að mestu með innrás herliðs Sovétmanna í borgina þann 4. nóvember 1956.

Á árunum 1956–2006 kom 451 flóttamaður til Íslands í boði ríkisstjórnarinnar. Fyrsti hópurinn, 52 flóttamenn frá Ungverjalandi, kom hingað árið 1956. Þremur árum síðar, árið 1959, komu 32 flóttamenn til landsins frá Júgóslavíu. Frá og með árinu 1979 hafa komið 94 flóttamenn til Íslands frá Víetnam, 26 frá Póllandi, 141 frá Krajina-héraði í fyrrum Júgóslavíu, 82 frá Kosovo og 24 frá Kólumbíu.
Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar