Kennsla í upphafi aldar

Kennsla í upphafi aldar

Jón Ívarsson

Jón Ívarsson

Snemma á áttunda áratugnum beitti prófessor Ólafur Hansson, þá formaður Sagnfræðistofnunar, sér fyrir því að Sagnfræðistofnun kæmi sér upp munnlegu heimildasafni. Helgi Skúli Kjartansson, nú prófessor í sagnfræði en þá nemi, fékk það hlutverk að tala við þrjá fyrstu heimildamenn safnsins, þau Önnu Klemensdóttur í Laufási, Valgeir Björnsson fyrrverandi hafnarstjóra og Jón Ívarsson fyrrverandi kaupfélagsstjóra. Alls urðu viðmælendurnir þessa átaks 6 talsins. Tekið var upp á hljóðsnældur af vandaðri gerð, viðtölin voru skráð og sum seinna uppskrifuð orðrétt. Viðtölin tekin upp á árunin 1974-1975 og telur safnið um 35 klukkustundir af upptökum. Viðfangsefnin eru fjölbreytt, meðal annars er rætt um bæði sveit og borg, horfna búhætti, félagslíf og skemmtanir, stjórnmál, nám og íþróttir, samskipti innan fjölskyldna, kaupfélögin og verslun, kreppuárin, samgöngumáta, skáldskap og rímur, jafnréttis- og verkalýðsbaráttu. Sagnfræðistofnun afhenti Miðstöð munnlegrar sögu safn sitt að gjöf í tilefni opnunar miðstöðvarinnar þann 26. janúar 2007.

Jón Ívarsson fæddist þann 1. janúar árið 1891. Foreldrar hans voru Ívar Sigurðsson bóndi og Rósa Sigurðardóttir, bóndahjón á Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal. Jón ólst upp á Snældubeinsstöðum og lærði að stauta á kver eins og önnur börn. 14 ára gamall hóf hann nám við lýðháskólann á Hvítárbakkaskóla, en það ár var einnig fyrsta starfsár skólans. Hvítárbakkaskóli var starfræktur með lýðháskólasniði til ársins 1931 en þá fluttist hann í Reykholt.

Jón þótti efnilegur drengur og að loknu námi í Hvítárbakkaskóla gerðist hann farkennari í Reykholtsdal. Í þeim hljóðdæmum sem hér að neðan birtast tjáir hann sig um nám þeirra tíma, bæði frá sjónarhóli nemandans og kennarans. Á fullorðinsárum sínum kom Jón víða við, var kaupfélagsstjóri í Hornafirði, sat í fjárhagsráði og sat þrjú ár á Alþingi. Viðtöl þau sem tekin voru á vegum Sagnfræðistofnunar geyma athyglisverðar frásagnir úr ævi manns sem fylgdist með þeim mestu breytingum sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum og sem tók þátt í mörgum þeim hræringum sem einkenna tuttugustu öldina.

Jón lést þann 3. júní 1982, átta árum eftir að upptökur Sagnfræðistofnunar áttu sér stað.

Smellið hér til að heyra Jón lýsa því hvernig hann lærði að lesa, skrifa og reikna

Smellið hér til að heyra Jón lýsa því námsskipulagi sem við lýði var er hann var barn

Smellið hér til að heyra Jón lýsa tilfinningum sínum gagnvart hlutverki kennarans

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar