Rannsóknir og söfnunarverkefni

Rannsóknir

Eitt af markmiðum Miðstöðvar munnlegrar sögu er að stuðla að aukinni notkun munnlegra heimilda í sagnfræðirannsóknum, skapa umræður um aðferðafræði munnlegrar sögu og aðstoða fræðimenn sem fást við munnlegar heimildir.

Starfsmaður Miðstöðvarinnar veitir fræðimönnum aðstoð og ráðleggingar við undirbúning og úrvinnslu viðtala. Auk þess geta fræðimenn sótt um að fá lánuð upptökutæki og annan búnað hjá Miðstöðinni í einstök verkefni. Fræðimenn eru hvattir til að leggja munnleg gögn í safn miðstöðvarinnar að lokinni rannsókn.  Ef þess er óskað er hægt að takmarka aðgang tímabundið vilji þeir vernda rannsóknarniðurstöður sínar.

Starfsmaður Miðstöðvarinnar mun sinna rannsóknum eftir því sem svigrúm leyfir.

Söfnunarverkefni

Miðstöð munnlegrar sögu stendur að söfnun munnlegra heimilda ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Sem dæmi um slík verkefni má nefna Reykjavíkursögur en það var unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg á árunum 2007-2009. Lesa má nánar um Reykjavíkursögur hér.

Árið 2007 safnaði Miðstöðin munnlegum heimildum um komu flóttafólks frá Ungverjalandi hingað til lands árið 1956. Lesa má nánar um það verkefni hér.

Af öðrum söfnunarverkefnum má nefna Kreppusögur en það er verkefni sem Miðstöðin fór af stað með í kjölfar bankahrunsins sem varð í október 2008. Tekin hafa verið viðtöl við um 100 einstaklinga með það að markmiði að halda til haga upplifun og reynslu Íslendinga af hruninu og kanna hvernig hrunið snerti líf almennings og hvernig fólk brást við þessum efnahagslegu sviptingum.

Loks má nefna að sumarið 2011 tóku tveir lausráðnir starfsmenn Miðstöðvarinnar viðtöl við 40 manns undir yfirskriftinni Hvernig var í útlöndum? Um var að ræða viðtalsrannsókn með það að markmiði að skoða reynslu Íslendinga af dvöl í útlöndum og áhrif hennar á sjálfsvitund, gildismat, lífsviðhorf og þjóðernisvitund.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar