Siðareglur

Siðareglur við söfnun og notkun munnlegra heimilda


Allir þeir sem vinna með munnlegar heimildir þurfa að huga að siðferðilegum hliðum við söfnun og notkun þeirra. Á erlendum vettvangi hafa mörg félög og stofnanir sett sér siðareglur sem taka á þeim sértæku spurningum sem viðkoma munnlegri sögu. Þar á meðal eru bresku samtökin Oral History Society, nýsjálensku samtökin National Oral History Association of New Zealand og  alþjóðlegu samtökin Oral History Association. Siðareglunum er ætlað að stuðla að aukinni meðvitund um ábyrga notkun munnlegra heimilda í rannsóknum og kennslu og miðlun þeirra til almennings. Munnlegar heimildir hafa þá sérstöðu umfram flestar aðrar heimildir að þær verða til í samvinnu spyrils/rannsakanda og viðmælanda. Vegna þekkingar sinnar og stöðu er rannsakandinn oftar en ekki í ákveðinni valdastöðu gagnvart heimildamanni sínum. Mikilvægt er að rannsakandinn sýni heimildamanni sínum, skoðunum hans og frásagnarmáta virðingu en reyni ekki að laga frásögn hans að eigin skoðunum eða hagsmunum.


Hér að neðan eru nokkrar reglur sem Miðstöð munnlegrar sögu mælir með að hafðar séu að leiðarljósi þegar munnlegrum heimildum er safnað og þær notaðar:

  • Spyrli ber að hafa skýra hugmynd um tilgang og markmið viðtalsins og gera viðmælanda sínum grein fyrir í hvaða tilgangi viðtalið er tekið.
  • Spyrli ber að gera viðmælanda sínum grein fyrir því þegar upptaka á sér stað og fá samþykki hans fyrir því að viðtalið sé tekið upp á varanlegt form.
  • Spyrill skal ávallt leita eftir skriflegu samþykki hjá viðmælanda sínum fyrir varðveislu upptöku, þar sem komi fram hvernig aðgengi að viðtali sé háttað. Miðstöð munnlegrar sögu notar í þessu skyni staðlað eyðublað (smellið hér til að skoða leyfisveitingu) fyrir þá sem fela henni gögn sín til varanlegrar varðveislu.
  • Spyrli ber að koma fram við viðmælanda af heiðarleika og sýna honum vinsemd og virðingu.
  • Spyrli ber að sýna skoðunum og sannfæringu viðmælanda síns virðingu, jafnvel þótt skoðanir hans kunni að stangast á við skoðanir og eða vitneskju rannsakandans.
  • Spyrli ber að setja trúnað við viðmælanda ofar öðrum hagsmunum, brjóti þær ekki í bága við lög. Spyrli ber að virða ósk vimælanda um að gera ákveðnar upplýsingar ekki opinberar.
Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar