Stríðsárin í Kaupmannahöfn

Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Ingeborg Einarsson


Ingeborg Einarsson fæddist í Danmörku árið 1921 en fluttist til Íslands árið 1946 með íslenskum eiginmanni sínum og tveimur börnum. Hún hefur búið hér á landi alla tíð síðan. Í viðtali við Sigrúnu Sigurðardóttur segir Ingeborg frá lífinu í Danmörku í skugga síðari heimsstyrjaldarinnar. Viðtalið var tekið á heimili Ingeborgar við Hæðargarð þann 18. desember 2006.

Mynd af Ingibjörgu Einarsdóttur

 

Ingeborg Korsbæk fæddist 28. mars 1921 í Holstebro á Jótlandi. Hún ólst upp hjá föður sínum, stjúpmóður og þremur bræðrum í stóru húsi fyrir utan bæinn þar sem faðir hennar rak skóla fyrir þroskaheftar stúlkur og stúlkur sem áttu við námsörðugleika að stríða. Stjúpmóðir Ingeborgar, Lisbeth Korsbæk, var sterk kona með miklar skoðanir, hún talaði jafnan fyrir auknu jafnrétti kvenna og þegar kom að því að Þjóðverjar hernámu Danmörku árið 1940 gekk hún til liðs við andspyrnuhreyfinguna. Það sama gerðu systkini hennar tvö sem bæði voru pyntuð í stríðinu af dönskum uppljóstrurum, svokölluðum „stikkerum”, sem unnu með Þjóðverjum og sögðu til þeirra sem voru í andspyrnuhreyfingunni.
Árið 1939, þegar Ingeborg var nítján ára gömul, réði hún sig til vinnu á sjúkrahúsi í Vejle og hugðist læra barnahjúkrun. Á spítalanum kynntist hún íslenskum lækni, Friðriki Einarssyni. Með þeim tókst góð vinátta og síðar ástir. Nokkru síðar fór Friðrik til starfa á Borgundarhólmi. „En ég hafði ekki verið lengi á Borgundarhólmi, þegar ég komst að raun um, að ég gæti alls ekki án þessarar stúlku verið,” segir Friðrik í ævisögu sinni: Læknir í þrem löndum. Friðrik sendi Ingeborg bónorðsbréf og stuttu síðar var hún komin til hans á Borgundarhólm. Ástin blómstraði en yfir þeim vofði engu að síður myrkur og drungi síðari heimsstyrjaldarinnar. Þessu lýsir Ingeborg vel í eftirfarandi hljóðbroti: 

Smellið hér til að hlusta á Ingeborg segja frá sundferd vid Bornholm

Ingeborg og Friðrik giftu sig í desember árið 1940. Síðan þá hefur Ingeborg borið nafnið Ingeborg Einarsson. Fyrsta hjónabandsárið bjuggu þau í Óðinsvéum þar sem Friðrik starfaði á spítala. Árið 1942 fluttu þau síðan til Kaupmannahafnar. Stríðið hafði dregist á langinn og Friðrik var óviss um hvort að hann ætti nokkurn tímann eftir að snúa aftur heim til ættjarðarinnar. Læknaprófið sem hann hafði lokið á Íslandi var ekki tekið fullgilt og taldi Friðrik því réttast að verða sér úti um læknapróf í Danmörku. Hann settist á skólabekk í Kaupmannahafnarháskóla til að ljúka þeim námskeiðum sem til þurfti og starfaði jafnframt á Borgarspítalanum (Kommunehospitalet) í Kaupmannahöfn.
Í maí árið 1942 eignuðustu þau Ingeborg og Friðrik sitt fyrsta barn, Kirsten, og tveimur árum síðar fæddist Halldór. Ingeborg segir hér frá því hvernig það var að fæða börn inn í samfélag sem einkenndist af ótta og erfiðleikum sem stríðið orsakaði.

Smellið hér til að hlusta á Ingeborg segja frá því hvernig það var að eignast börn í miðju stríði

Mynd af Ingeborg Einarsson

 

Þau Ingeborg og Friðrik bjuggu í fallegri blokkaríbúð á Bispebjerg í Kaupmannahöfn ásamt börnum sínum. Í sama stigagangi bjuggu fleiri læknanemar og flestir vinir þeirra voru úr hópi samnemenda Friðriks í háskólanum og lækna sem hann starfaði með á spítalanum. Í þeim hópi voru bæði konur og karlar en í hópi bestu vinkvenna Ingeborgar á þessum tíma voru tvær ungar konur sem störfuðu sem læknar í Kaupmannahöfn.
Töluverð átök urðu milli þýska hersins og dönsku andspyrnuhreyfingarinnar. Hvað eftir annað var komið með sært andspyrnufólk inn á spítalann til Friðriks. Í þeim hópi voru stundum vinir hans og kunningjar. Flestir vinir þeirra Ingeborgs og Friðriks á þessum tíma voru meðlimir í dönsku andspyrnuhreyfingunni. Í þessu hljóðbroti lýsir Ingeborg ástandinu í Kaupmannahöfn, vináttu læknanna og andspyrnufólksins.

Smellið hér til að hlusta á Ingeborg segja frá stríðsárunum í Kaupmannahöfn

Eftir því sem leið á stríðið hörðnuðu átökin og fleiri særðust. Friðrik var meira og meira á spítalanum. Þar tók hann bæði á móti þýskum hermönnum og dönsku andspyrnufólki. Þegar andspyrnufólk kom inn á spítalann skipti öllu máli að hafa hraðar hendur og gera að sárum þeirra því að þýski herinn fylgdist náið með því sem þar fór fram. Ef ekki tókst að koma viðkomandi undan í tæka tíð neyddust læknarnir til að framselja hann í hendur Þjóðverja. Friðrik fór sjaldan milli bygginga spítalans nema í fylgd með vopnuðum hermanni. Hættan var þó ekki liðin hjá þó að vaktin væri búin því að áhættusamt gat verið að ferðast milli staða eftir að myrkur skall á og útgöngubann var við lýði. Læknar báru merki Rauða krossins á upphandlegg og höfðu sérstök skilríki sem heimiluðu þeim að ferðast milli staða eftir myrkur. Það dugði þó ekki alltaf til þess að tryggja öryggi þeirra eins og Ingeborg lýsir hér:

Smellið hér til að heyra Ingeborg segja frá örlögum Ulf Hansen

 

Þrátt fyrir að Ingeborg og Friðrik hafi sloppið heil á húfi úr stríðinu setti ástandið mark sitt á þau. Ingeborg segir að þessi stöðugi ótti sem einkenndi hernámsárin hafi setið í henni í töluverðan tíma eftir að stríðinu lauk, einnig eftir að þau fluttu til Íslands í ársbyrjun 1946.

Smellið hér til að heyra Ingeborg segja frá því hvernig minningarnar frá stríðsárunum lifðu áfram innra með henni

Eftir því sem frá leið varð lífið á Íslandi auðveldara. Ingeborg var fljót að ná það góðum tökum á íslenskunni að hún gat bjargað sér dags daglega og fylgst með samræðum. Aðeins hálfum mánuði eftir komuna til landsins var hún farin að svara í símann fyrir Friðrik ef hann var í læknavitjunum og taka við skilaboðum frá sjúklingum.

Smellið hér til að heyra Ingeborg segja frá því hvernig hún bjargaði sér á íslensku

 

Húsamyndir
Haustið 1945 hafði Ingeborg sótt íslensku tíma hjá Sigfúsi Blöndal ásamt þremur öðrum dönskum konum sem einnig voru giftar íslenskum mönnum. Sú kunnátta lagði þann grunn sem Ingeborg byggði á eftir að til Íslands var komið. Það voru viðbrigði að flytja úr stórborginni Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Vöruskortur var töluverður og skömmtunarseðlarnir, sem Ingeborg þekkti svo vel frá stríðsárunum, voru hluti af daglegu lífi eftirstríðsáranna. Fljótlega fór Ingeborg að rækta bæði grænmeti og blóm sem fáir höfðu trú á að gætu vaxið á Íslandi. Nágrannarnir ráku upp stór augu þegar grænmetið tók að spretta í garðinum og enn meiri var undrunin þegar fréttist af því að fjölskyldan borðaði kjúkling til hátíðarbirgða. Smám saman aðlagaðist Ingeborg lífinu á Íslandi. Hún eignaðist fljótlega góða vini hér á landi auk þess sem foreldrar og systkini Friðriks voru í miklu sambandi við þau.


Ingeborg og vinkona með börn sín

Smellið hér til að heyra Ingeborg segja frá því hvernig það var að aðlagast nýju samfélagi

 

Erfiðleikarnir voru þó ekki allir að baki. Árið 1948 bættist lítill drengur í fjölskylduna. Hann var með slæman hjartagalla og var vart hugað líf. Örn litli lést haustið 1949. Á árunum 1950-1953 eignuðust þau Ingeborg og Friðrik tvö heilbrigð börn, Erling og Hildi.

Friðrik vann myrkrana á milli til að sjá fyrir fjölskyldu sinni en auk þess að sinna læknastörfum vann hann að doktorsritgerð sem hann lauk árið 1958. Friðrik var skipaður yfirlæknir á Borgarspítalanum árið 1963 og varð síðar yfirlæknir á öldrunardeild í Hafnarbúðum. Í frístundum sinnti Ingeborg garðyrkju og listmálun auk þess sem hún og Friðrik ferðuðust mikið erlendis, og nutu þess að veiða bæði fugl og fisk í íslenskri náttúru. Friðrik lést árið 2001 og síðan þá hefur Ingeborg búið ein í fallegri íbúð þeirra við Hæðargarð. Hún á stóra fjölskyldu, fjögur börn á lífi, níu barnabörn og sextán barnabörn. Stærsti hluti þeirra býr á Íslandi en undanfarin áratug hafa fimm af níu barnabörnum hennar sótt nám til Danmerkur og verið búsett þar um lengri eða skemmri tíma. Þau dönsku menningaráhrif sem ætíð einkenndu heimili Ingeborgar og Friðriks hafa án efa haft töluvert að segja fyrir afkomendur þeirra og þá stefnu sem þau hafa markað sér.

Þrátt fyrir að mörg ár séu síðan Ingeborg heimsótti heimaslóðirnar á Jótlandi síðast lifir hún og hrærist bæði með annan fótinn í danskri menningu og hinn í íslenskri. Hún heldur góðu sambandi við fjölskyldu sína í Danmörku, fylgist með menningarmálum þar í landi, les danskar bókmenntir og skrifar jafnan á dönsku. En hér á Íslandi hefur hún búið í meira en sextíu ár. Ef til vill er því réttast að segja að Ingeborg Einarsson eigi sér tvö heimalönd, Danmörku og Íslandi. 

Smellið hér til að heyra Ingeborg segja frá því hvernig hún á sér bæði íslenska og danska sjálfsmynd

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar