Tæknibúnaður

Upptökutækin

Stafræn tæki til upptöku hafa algerlega tekið við af segulbandstækjum. Sá kostur sem stafræn upptaka hefur fram yfir analóg upptöku er fyrst og fremst sá að í nýrri gerðum stafrænna upptökutækja eru engir hlutar tækisins á hreyfingu, ólíkt því sem gerist þegar t.d. segulbandssnælda snýst. Upptakan verður því laus við það suð sem flestir kannast við sem hlustað hafa á hljóðritun af snældum.

Sú gerð stafrænna upptökutækja sem er í dag er ráðandi á markaðnum og virðist ætla að halda velli um nokkurt skeið, geymir upptökuna í innbyggðu minni og/eða á minniskorti sem stungið er í þar til gerða rauf á tækinu. Upptakan er geymd sem stafræn hljóðskrá og það er bæði auðvelt og fljótlegt að flytja skrána yfir í tölvu, yfirleitt með því að tengja tækið með svokallaðri usb-snúru við tölvuna. Sumar tölvur leyfa einnig að minniskortum sé stungið inn í sérstakt drif og þau tæmd þannig.

Nokkuð úrval er af handhægum upptökutækjum og erfitt getur verið að gera sér grein fyrir því hvað skilur á milli einstakra tækja. Í fljótu bragði má þó skipta þeim upptökutækjum sem á markaðnum eru í tvo flokka. Í fyrri flokknum eru hinir svonefndu diktafónar sem fást í almennum raftækjabúðum og kosta að jafnaði á bilinu fimm til tuttugu þúsund krónur. Þessi tæki geta oft tekið upp marga klukkutíma efnis en á móti kemur að hljómgæðin þykja ekki nægilega góð til þess að upptökur gerðar í slíkum tækjum séu nothæfar til til útgáfu eða til afspilunar í ljósvakamiðlum. Í seinni flokknum eru mun vandaðri upptökutæki sem taka upp í fullkomnum gæðum. Kosta ódýrustu tækin í þessum flokki frá fimmtíu þúsund krónum hjá innlendum söluaðilum.

Mínídiskspilarar

Í mörgum ritum og greinum um munnlega sögu er mælt með upptökutækjum sem taka upp á mínidiska en slík tæki virtust á tímabili vera það sem koma skyldi. Markaðshlutdeild þessarra tækja hefur þó farið minnkandi og allt útlit er fyrir að innan fárra ára verði framleiðslu þeirra hætt. Því er ekki ráðlagt að fjárfesta í nýjum mínídiskaspilara. Hvað gæði upptökunnar varðar standa mínídiskspilararnir þó enn jafnfætis öðrum stafrænum upptökutækjum. Þeim sem eiga eða hafa aðgang að mínídiskspilara er því eindregið ráðlagt að nota hann frekar en stafræna diktafóna sem taka ekki upp í fullnægjandi hljóðgæðum. Þess má að lokum geta að DAT tækin sem fyrst stafrænna tækja komu á markað eru nú almennt álitin úrelt.

Minniskort


Minniskort koma í ýmsum stærðum og ráða hljómgæði upptökunnar því hvað mikið er hægt að geyma á kortinu hverju sinni. Því meiri gæði sem valin eru, þeim mun meira rými tekur hljóðskráin. Hafið í huga að ekki henta öll minniskort öllum tækjum og athugið með hvaða kortum framleiðandi tækisins mælir. Gott er að eiga fleiri en eitt minniskort.
Hljómgæði og skráarsnið

Hljóðgæði og hljóðsnið


Flest upptökutæki leyfa notandanum að velja á milli nokkurra ólíkra gæðastaðla. Þau allra fullkomnustu gera notandanum jafnvel kleyft að stilla gæði upptökunnar mjög nákvæmlega.


Hvað hljóðgæði varðar er mikilvægt að átta sig á þeim mun sem er á óþjöppuðum og þjöppuðum skrám. Þjappaðar skrár eru skrár sem hafa verið meðhöndlaðar á sérstakan hátt með það að markmiði að þær taki sem minnst pláss. Við þetta ferli er hluta af upplýsingunum sem skráin hefur að geyma hent til að minnka umfang þeirra. Sem dæmi má nefna að þegar hljóðskrá er færð yfir á mp3 snið er hún þjöppuð saman allt niður í einn tíunda af upprunalegri stærð. Slíkar skrár eru auðvitað léttari í allri vinnslu og meðförum og því er hentugt að búa til af upptökum afrit á þjöppuðu formi til að vinna með. Það þjapppaða hljóðsnið sem flestir kannast líklega við nefnist .mp3 en einnig bjóða margir diktafónar upptöku á þjappaða hljóðforminu .dss .
Það óþjappaða hljóðsnið sem mælt er með til hljóðupptöku nefnist wave eða .wav. Til eru margir mismunandi staðlar fyrir þetta tiltekna hljóðsnið. Til þess að hljóðupptaka á .wav sniði teljist í fullum gæðum er mælt með því að tekið sé upp á 48kHz í 16 bita upplausn. Mörg hinna vandaðri upptökutækja leyfa jafnvel enn nákvæmari upptöku.

Hljóðnemar

Að öllu jöfnu er betra að notast við utanáliggjandi hljóðnema heldur en þá sem innbyggðir eru í upptökutækið. Einstaka upptökutæki eru þó undantekning frá þessari reglu. Starfsmenn Miðstöðvar munnlegrar sögu svara fúslega fyrirspurnum þar að lútandi eftir bestu getu.

Litlir hljóðnemar sem festir eru í barm viðmælandans hafa marga kosti fram yfir hljóðnema sem beint er að viðmælanda eða hljóðnema sem stillt er upp á borði í þar til gerðu statífi. Fyrir utan þau óþægindi sem því fylgja að halda á hljóðnema meðan að á lengra viðtali stendur þá er alltaf hætta á því að snúran sem tengir hljóðnemann við upptökutækið sláist utan í borð eða önnur húsgögn. Slík smáhljóð magnast jafnan upp á upptöku svo best er að reyna að komast einfaldlega hjá þeim. Hvað hljóðnema í borðstatífi varðar þá er nokkur vandi er að hljóðnemanum þannig fyrir þannig að öruggt sé að borðplatan framkalli ekki „trommuhljóð” þegar hún er snert eða hlutir, t.d. kaffibolli, lagðir á hana.

Athugið að sumir hljóðnemar notast við rafhlöðu á meðan aðrir eru knúnir áfram af rafstraumi úr upptökutækinu sjálfu. Einnig er misjafnt hvernig hljóðnemar tengjast við upptökutækið. Gætið vandlega að því að velja hljóðnema sem virkar með upptökutækinu ykkar.

Varðveislumáti

Flytjið upptökur úr upptökutækinu yfir í tölvu eins fljótt og auðið er. Gætið þess að nefna skrárnar á þann máta að ljóst sé hvað er á þeim. Takið svo afrit af upptökunni og geymið á annarri tölvu eða brennið á geisladisk. Merkið diskana vel og vandlega en notið til þess gerðan penna þar sem blekið í venjulegu merkitússi getur skemmt geisladiska.

Til varðveislu gagna sem geyma á yfir lengri tíma er mælt með gullhúðuðum geisladiskum. Forðist endurskrifanlega diska þar sem þeir eru ganga ekki endilega í alla geislaspilara. Ef notast er við mínídiskspilara sem upptökutæki takið þá einnig afrit yfir á hefðbundna geisladiska þar sem það hefur sýnt sig að mínídiskar eru viðkvæmir og efni á þeim getur glatast.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar