Úrvinnsla

Úrvinnsla

Hlustun

Afspilunarbúnaður er í dag innbyggður í öll stýrikerfi og til einfaldrar hlustunar kjósa flestir að notast við þau forrit sem tölvunni fylgja til afspilunar stafrænna hljóðskráa. Sumir kjósa þó að brenna skrárnar á geisladisk og hlusta á hann í hljómflutniningstækjum.

 

Vinnslueintök

Þótt hvatt sé til þess að viðtöl séu tekin upp á wave sniði og að það sé sömuleiðis notað til að vista varðveislueintök getur þetta hljóðsnið verið þungt í vinnslu. Því er ráðlegt að búa til .mp3 eintök af upptökum, þannig taka upptökurnar minna pláss á harða disknum ykkar og eru fljótari að hlaðast inn í þau forrit sem þið notið til afspilunar og úrvinnslu. Bæði hljóðsniðin er hægt að spila á almennum afspilunarforritum sem eru þegar til staðar í flestum tölvum.

Uppskriftir

Til langs tíma var venjan að nálgast munnlegar heimildir á þann hátt að skrifa þær fyrst upp af nákvæmni. Í dag er það almennt viðurkennt að í frásögninni felst þó mun meira en hægt er að fanga í gegnum uppskrifaðan texta. Auk sjálfra orðanna liggur merking frásagnarinar í því hvernig viðmælandinn segir frá; í raddbeitingu, hiki og þögnum, í hlátri eða jafnvel gráti. Uppskrift viðtals er því aldrei hægt að leggja að jöfnu við það að hlusta á sjálfa upptökuna.
Það að skrifa viðtöl upp orð frá orði getur þó auðveldað ýmsa úrvinnslu. Þannig er hægt að beita orðaleit til að staðsetja tiltekin atriði í viðtalinu og sé ætlunin að leggja í miðlun áherslu á beinar tilvitnanir í orð viðmælanda getur uppskrift reynst gott hjálpartæki til að velja tilvitnanir og hafna. Þetta er þó afar tímafrekt verk og gera má ráð fyrir því að fyrir hvern klukkutíma af uppteknu efni geti farið allt að heill vinnudagur í uppskrif. Smellið
hér til að nálgast leiðbeiningar miðstöðvarinnar um gerð uppskriftar.


Útdráttur

Markmið þess að skrifa útdrátt viðtals er að draga upp mynd af innihaldi þess. Útdrátturinn á að auðvelda þeim sem skoða söfn viðtala að ákveða hvort það sé líklegt að tiltekið viðtal gagnist honum eða ekki. Útdráttinn þarf því að skrifa með það í huga að umræðuefni og persónur séu skiljanleg öðrum en þeim sem voru viðstaddir viðtalið. Smellið
hér til þess að nálgast leiðbeiningar miðstöðvarinnar um gerð útdrátts.


Express Scribe

Express Scribe er notendavænt forrit, sérhannað til að vinna upplýsingar úr hljóðupptökum og sameinar virkni afspilunarforrita og ritvinnsluforrits. Hljóðskráin sem unnið skal með opnast í viðmóti sem sýnir þá takka sem þarf til að stjórna afspilun. Fyrir neðan þessa takka er glugga sem hægt er að skrifa í. Afspiluninni er hvort sem er hægt að stjórna með mús, með fótstigi eða með skilgreindum flýtilyklum (hot-keys) um leið og vélritað er. Síðastnefnda lausnin er mjög þægileg og aðgengileg felstum þeim sem hafa tileinkað sér einhverja lágmarksfærni í vélritun.
Hægt er að stýra afspilunarhraða en það er ótvíræður kostur þegar unnið er með munnlegar himildir að hægt sé að draga úr hraðanum á þeim upptökum sem hlustað er á. Þessi möguleiki auðveldar ekki aðeins uppskriftir heldur einnig hlustun, en það er ótvíræður kostur séu þeir sem á upptökunni tala óskýrmæltir eða upptaka að einhverju leyti óskýr. Að sama skapi er kostur að geta hraðað upptökunni eilítið til að geta komist hraðr í gegnum það efni sem verið er að skoða. Express Scribe má hlaða niður ókeypis af heimasíðu framleiðanda og mælir hljóðdeild British Library sérstaklega með því á nýopnaðri heimasíðu þar sem hljóðupptökum í vörslu safnsins er miðlað.


Audacity

Hvað úrvinnslu varðar eru hljóðheimildir eru annars eðlis en ritheimildir. Mörgum finnst þægilegt að vinna beint með hljóðskrár og klippa út úr þeim athyglisverða búta til frekari skoðunar, rétt eins og vinna má með texta með því að klippa úr honum þá búta sem ætlunin er að skoða betur. Hugbúnaðurinn Audacity er dæmi um aðgengilegan hugbúnað til klippingar og má hlaða honum ókeypis niður af heimasíðu framleiðanda. Hentar hann því vel þeim sem vilja byrja að fikra sig áfram með vinnslu hljóðs.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar