Munnleg saga (e. oral history) er mikilvæg aðferð í sagnfræði sem felst í því að afla sögulegrar þekkingar með viðtölum við fólk sem hefur tekið þátt í eða þekkir til þeirra atburða sem verið er að rannsaka. Endurminningar og lífsreynsla fólks veita rannsakendum aðgang að stóratburðum sögunnar jafnt sem hversdagslífi almennings og hefur munnleg saga á síðari árum verið viðurkennd sem áhrifarík aðferð innan sagnfræði.
Munnlegar heimildir verða til með ýmsum hætti, t.d. þegar fræðimaður eða blaðamaður tekur viðtal við einstakling um lífshlaup hans eða ákveðna atburði sem viðkomandi hefur tekið þátt í eða orðið vitni að. Mikið af munnlegum heimildum verður til með því að fólk hljóðritar sjálft frásagnir sínar eða nákominna ættingja í því skyni að varðveita heimildir um líf og starf viðkomandi fyrir afkomendur. Munnlegar heimildir geta einnig verið upptökur af fundum og ráðstefnum, eða upptökur sem gerðar eru á opinberum vettvangi, til dæmis í verslunarmiðstöðum eða á flugvöllum. Enn fremur geta umhverfishljóð talist til munnlegra heimilda, til dæmis upptökur á umhverfishljóðum í miðbæ Akureyrar eða í nýbyggingarhverfi í Kópavogi.
Munnlegar heimildir eru ríkar af ýmsum atriðum sem minna fer fyrir í öðrum tegundum heimilda s.s. viðhorfum og lífsháttum fólks, upplifun einstaklinga og tilfinningum, og því tekst oft með þessari aðferð að gefa sögunni meira líf og lit en með notkun annarra sögulegra heimilda. Þá hafa munnlegar heimildir reynst ómetanlegar þegar kemur að því að segja sögu ýmissa hópa sem ekki hafa skilið eftir sig mikið af rituðum heimildum eða haft bein áhrif á þær opinberu heimildir sem mest eru notaðar í sagnfræði. Má í þessu sambandi nefna að víða erlendis hafa fræðimenn notað munnlegar heimildir sem efnivið í rannsóknum í kvennasögu, sögu verkafólks og sögu ýmissa annarra hópa, svo sem innflytjenda, barna og aldraðra.
Viðtalstækni – Leiðbeiningar við söfnun og frágang munnlegra heimilda
Að mörgu er að hyggja þegar munnlegum heimildum er safnað. Því vandaðri sem undirbúningurinn er, þeim mun líklegra er að viðtalið skili þeim árangri sem að var stefnt í upphafi og verði bæði viðmælanda og spyrlinum til ánægju og fróðleiks. Með reynslu verður spyrillinn færari en byrjendur geta einnig tekið góð viðtöl undirbúi þeir sig vel.
Tilgangur
Viðtöl eru tekin upp í mismunandi tilgangi og við ólíkar aðstæður. Mikilvægt er í upphafi að gera sér grein fyrir tilganginum með upptökunni. Sem dæmi má nefna:
Markmiðin geta verið mörg en mikilvægt er að gera sér grein fyrir hvert þeirra skiptir mestu máli. Vinnubrögð eru mismunandi eftir tegund viðtala og því þarf að haga undirbúningi og aðstæðum eftir tilgangi þeirra. Það þar t.d. að standa öðru vísi að viðtali um lífshlaup manns en viðtali um ákveðið málefni. Kosti viðtala þarf einnig að vega og meta í samanburði við aðrar heimildir. Almennt gildir að mestur fengur er að því að taka viðtöl um lífsreynslu fólks og viðhorf fremur en t.d. um tölulegar upplýsingar og slíkt sem oftast er vænlegra að fá úr rituðum heimildum því minni viðmælenda getur verið brigðult um slík atriði.
Viðmælendur
Oftast nær eru viðtöl tekin til að fá upplýsingar um ákveðin mál og því eru viðmælendurnir valdir út frá málefnunum. Stöku sinnum er þessu snúið við og fróður viðmælandi valinn fyrst og málefnið ræðst af tali hans eða hennar.
Algengasta form viðtala er það að einn einstaklingur ræði við annan. Þegar tveir eða fleiri einstaklingar koma saman fást þó oft áhugaverð sjónarhorn. Hópviðtöl geta dregið fram óvænta fleti á umræðuefninu, bæði þegar hópurinn þekkist innbyrðis og líka þegar saman er stefnt einstaklingum sem ekki þekkjast. Þessi nálgun reynist best þegar unnið er með afmarkaða atburði eða málefni. Að vinna úr viðtali þar sem margar (ókunnugar) raddir fléttast saman er hinsvegar að sjálfsögðu flóknara en að vinna úr viðtali þar sem aðeins er um einn viðmælanda er að ræða.
Það getur krafist nokkurrar fyrirhafnar að ná til viðmælandans og oft kemur það fólki á óvart að falast sé eftir persónulegum skoðunum þess. Einstaklingar sem staðið hafa í eldlínunni í stjórnmálum eða viðskiptalífi eru vanari því að reynsla þeirra og skoðanir þyki frásagnarverð en þeirra sem telja sig hafa lifað hversdagslegra lífi. Mörgum þykir hentugast að hafa samband við viðmælendur bréfleiðis og fylgja því síðan eftir með símtali nokkrum dögum síðar. Kynntu verkefnið, útskýrðu hvert sé markmið þess og hvernig þú ætlir þér að miðla rödd viðkomandi. Útskýrðu af hverju þú telur frásögn hans skipta máli.
Undirbúningur viðtals
Hér skulu nefnd nokkur atriði sem skipta máli við undirbúning viðtals:
Mikilvægt er að kynna sér málefnið sem best sem til umræðu er. Þá er líklegra að spurt sé góðra spurninga. Um leið er rétt að vera með opinn huga gagnvart nýjum upplýsingum eða sjónarhornum hjá viðmælanda sem stríða jafnvel gegn því sem áður var haldið. Hvað veistu um viðmælandann? Góðar upplýsingar um viðmælanda geta komið sér vel til að skapa traust og velja réttu spurningarnar.
Búinn er til spurningalisti en síðan er misjafnt eftir markmiði viðtalsins hve nákvæmlega er farið eftir honum. Í stöðluðum viðtölum er nákvæmlega fylgt spurningum með föstu orðalagi en í óstöðluðum viðtölum er spurningarnar opnari og stundum aðeins fylgt ákveðnum efnisramma. Hvort heldur sem er, hafðu spurningarnar stuttar og auðskiljanlegar og forðastu að spyrja leiðandi spurninga. Oft er ávinningur að því að hleypa viðmælanda að með hjartfólgið efni þó að það hafi ekki verið á listanum.
Rannsóknarverkefni þar sem tekinn er fjöldi viðtala krefjast frá upphafi góðrar yfirsýnar yfir það hverju viðtölin eigi að skila og mikillar skipulagningar í úrvinnslu. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því hvernig umfjöllunarefnið skiptist upp í ólík svið og hvaða einstaklingar séu líklegir til að teljast lykilaðilar í heimildaöfluninni.
Veldu upptökutæki sem er þægilegt í notkun og tryggir hljómgæði. Góður hljóðnemi er mikilvægur í því sambandi. Vertu búinn að kynna þér hvernig tækið virkar fyrir viðtalið. Smelltu hér til að fræðast um upptökubúnað.
Viðtalið
Val á upptökustað skiptir miklu máli og taka þarf mið af því hvar bæði viðmælanda og spyrjanda líður vel. Sömuleiðis þarf staðurinn að vera sæmilega hljóðlátur til þess að utanaðkomandi hljóð trufli ekki upptökuna. Jafnvel inni á heimilum þarf að taka tillit til smáhljóða á borð við brak í leðurstólum og hávært klukkutif svo dæmi séu nefnd, en hljóð sem virðast léttvæg geta orðið mjög truflandi á upptöku.
Til að skapa þægilegt andrúmsloft er æskilegt að tala óformlega við viðmælandann áður en tekið er upp og eins á eftir, þó einkum um annað en það sem viðtalið á að snúast um. Ef viðmælandinn tekur á móti þér á heimili sínu getur verið tilefni til að fá að skoða ljósmyndir eða muni sem tengjast efni viðtalsins. Komdu upptökutækinu fyrir á lítt áberandi stað til hliðar ef hægt er en ekki á milli ykkar. Notir þú hnapphjóðnema skaltu setja hann u.þ.b. 20 sm frá munni viðmælanda.
Nauðsynlegt er að í upphafi viðtals komi fram hver tekur viðtalið og hvenær, við hvern er talað og í hvaða tilgangi. Leggðu kapp á að upptökur þínar séu sem áheyrilegastar, helst þannig að þær séu hæfar til spilunar í t.d. útvarpsþáttum, til miðlunar á vef eða til notkunar í safnastarfi. Hlustaðu eftir eigin rödd í þeim upptökum sem þú hefur gert og reyndu að draga úr hummi og jánkunum sem eru eðlilegar þegar hlustað er á frásögn en geta virkað truflandi þegar miðla á sjálfri upptökunni.
Mörgum reynist auðveldara að rifja upp atburði sé umtalsefnið rætt í tímaröð og fyrst spurt út í þau atriði sem fjarlægust eru í tíma. Sjálfsagt er að byrja á að spyrja viðmælanda um hvar og hvenær hann var fæddur. Gripir og ljósmyndir geta einnig kallað fram minningar og auðveldað upprifjun. Forðastu leiðandi spurningar og reyndu eftir fremsta megni að gefa viðmælandanum svigrúm til að segja frá með sínum eigin orðum. Vertu ekki feiminn við að biðja viðmælandann um að lýsa atvikum, verklagi, stöðum eða fólki eða útskýra nánar hluti sem þið skiljið ekki.
Góð aðferð við að hafa yfirsýn yfir framvindu viðtalsins er að útbúa gátlista yfir þau atriði sem þú vilt ræða. Flokkaðu atriðin í tímaröð eða eftir þemum eða einhverri annarri reglu sem auðveldar þér að fylgjast með samræðunum.
Lengd viðtals ræðst af umfjöllunarefni og úthaldi viðmælanda. Endaðu viðtalið þegar áhugi og einbeiting viðmælanda er farinn að dofna. Úrvinnslan er að öllu jöfnu mun tímafrekari en sjálft viðtalið. Almenn þumalputtaregla er að úrvinnsla viðtals taki að meðaltali einn vinnudag.
Eftir viðtalið
Á frumeintak viðtals, hvort sem það er diskur eða spóla, þarf að merkja vandlega nafn viðmælanda, fæðingardag, upptökudag og aðrar upplýsingar. Taktu afrit af frumeintakinu og geymdu á hentugum og öruggum stað. Frekari skráning er gerð í tölvu og þar koma fram, auk fyrrnefndra upplýsinga, samantekt á efni viðtalsins.Síðan er viðtalið afritað. Því fyrr sem skráning og afritun viðtals er gerð þeim mun auðveldari er hún.
Upplýst samþykki viðmælanda er forsenda þess að viðtalið sé nýtanlegur efniviður til miðlunar. Fáðu undirritað leyfi viðmælanda til notkunar á viðtalinu. Hér er Samkomulag um not og miðlun viðtals sem Miðstöð munnlegrar sögu notar þegar viðtöl eru tekin. Þegar viðtal eða gögn (segulbönd, skjöl, ljósmyndir…) eru afhent Miðstöðinni þarf afhendingaraðili líka að fylla út eyðublaðið Afhending gagna. Miðstöð munnlegrar sögu hvetur til að þessum formsatriðum sé fullnægt og gert sé ráð fyrir því að viðtöl renni að rannsókn lokinni til safns Miðstöðvarinnar.
Kynntu þér reglur um höfundarétt. Venjulega gildir sú regla við upptöku á viðtölum að hver einstaklingur á höfundarrétt að eigin orðum, en sá sem tekur viðtalið upp á höfundarétt að upptökunni sjálfri. Sjá nánar hér um höfundarétt.
Bjóddu viðmælanda afrit af viðtalinu. Láttu viðmælanda vita þegar verkefninu hefur verið lokið, hvernig það gekk og hvar sé hægt að nálgast það í fullgerðri mynd. Tryggðu að viðmælandinn hafi þær upplýsingar sem þarf til að ná í ykkur og fáið leyfi til að hafa aftur samband við viðmælanda til að fá útskýringar á atriðum sem við úrvinnslu viðtalsins kunna að vefjast fyrir ykkur. Haltu vandlega upp á upplýsingar um viðmælanda og hvernig hafa megi samband við hann.
Hafðu siðareglur við söfnun og notkun munnlegrar sögu í huga. Smelltu hér til að fræðast meira um siðareglur.
Birting
Viðtal sem tekið er upp er einstök heimild og því er mikilvægt að varðveita það á sem varanlegastan hátt og skrá það vel. Sum viðtöl eru bara til heimabrúks og eru ekki hugsuð til birtingar. En allir ættu að velta því fyrir sér hvort viðtölin eigi ekki erindi við fleiri og ástæða sé til að koma þeim á framfæri og birta á einhvern hátt. Miðstöð munnlegrar sögu í Þjóðarbókhlöðu tekur við slíku efni, geymir við bestu skilyrði, skráir og kemur á framfæri eftir óskum þess sem á rétt á efninu. Sumt efni á skilið að fá að birtast svo að aðrir fái að njóta þess. Þá er ýmist átt við hljóðupptökurnar sjálfar, afritun af þeim eða verkefni sem byggjast á viðtölunum og öðru efni. Skoðum tvö dæmi:
Frekari upplýsingar
Mikið er til af leiðbeiningum og hollráðum við öflun og notkun munnlegra heimilda. Hér eru nokkrar ritheimildir og vefsvæði þar sem fjallað er um þessi mál.
Ritheimildir
Vefsvæði
Siðareglur við söfnun og notkun munnlegra heimilda
Allir þeir sem vinna með munnlegar heimildir þurfa að huga að siðferðilegum hliðum við söfnun og notkun þeirra. Á erlendum vettvangi hafa mörg félög og stofnanir sett sér siðareglur sem taka á þeim sértæku spurningum sem viðkoma munnlegri sögu. Þar á meðal eru bresku samtökin Oral History Society, nýsjálensku samtökin National Oral History Association of New Zealand og alþjóðlegu samtökin Oral History Association. Siðareglunum er ætlað að stuðla að aukinni meðvitund um ábyrga notkun munnlegra heimilda í rannsóknum og kennslu og miðlun þeirra til almennings. Munnlegar heimildir hafa þá sérstöðu umfram flestar aðrar heimildir að þær verða til í samvinnu spyrils/rannsakanda og viðmælanda. Vegna þekkingar sinnar og stöðu er rannsakandinn oftar en ekki í ákveðinni valdastöðu gagnvart heimildamanni sínum. Mikilvægt er að rannsakandinn sýni heimildamanni sínum, skoðunum hans og frásagnarmáta virðingu en reyni ekki að laga frásögn hans að eigin skoðunum eða hagsmunum.
Hér að neðan eru nokkrar reglur sem Miðstöð munnlegrar sögu mælir með að hafðar séu að leiðarljósi þegar munnlegrum heimildum er safnað og þær notaðar: