Hvað er munnleg saga?

Munnleg saga (e. oral history) er mikilvæg aðferð í sagnfræði sem felst í því að afla sögulegrar þekkingar með viðtölum við fólk sem hefur tekið þátt í eða þekkir til þeirra atburða sem verið er að rannsaka. Endurminningar og lífsreynsla fólks veita rannsakendum aðgang að stóratburðum sögunnar jafnt sem hversdagslífi almennings og hefur munnleg saga á síðari árum verið viðurkennd sem áhrifarík aðferð innan sagnfræði.

Munnlegar heimildir verða til með ýmsum hætti, t.d. þegar fræðimaður eða blaðamaður tekur viðtal við einstakling um lífshlaup hans eða ákveðna atburði sem viðkomandi hefur tekið þátt í eða orðið vitni að. Mikið af munnlegum heimildum verður til með því að fólk hljóðritar sjálft frásagnir sínar eða nákominna ættingja í því skyni að varðveita heimildir líf og starf viðkomandi fyrir afkomendurna. Munnlegar heimildir geta einnig verið upptökur af fundum og ráðstefnum, eða upptökur sem gerðar eru á opinberum vettvangi, til dæmis í verslunarmiðstöðum eða á flugvöllum. Enn fremur geta umhverfishljóð talist til munnlegra heimilda, til dæmis upptökur á umhverfishljóðum í miðbæ Akureyrar eða í nýbyggingarhverfi í Kópavogi.

Munnlegar heimildir eru ríkar af ýmsum atriðum sem minna fer fyrir í öðrum tegundum heimilda s.s. viðhorfum og lífsháttum fólks, upplifun einstaklinga og tilfinningum, og því tekst oft með þessari aðferð að gefa sögunni meira líf og lit en með notkun annarra sögulegra heimilda. Þá hafa munnlegar heimildir reynst ómetanlegar þegar kemur að því að segja sögu ýmissa hópa sem ekki hafa skilið eftir sig mikið af rituðum heimildum eða haft bein áhrif á þær opinberu heimildir sem mest eru notaðar í sagnfræði. Má í þessu sambandi nefna að víða erlendis hafa fræðimenn notað munnlegar heimildir sem efnivið í rannsóknum í kvennasögu, sögu verkafólks og sögu ýmissa annarra hópa, svo sem innflytjenda, barna og aldraðra.

Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar