Miðstöð munnlegrar sögu tók til starfa 26. janúar 2007. Miðstöðin er safn og rannsókna- og fræðslustofnun á sviði munnlegrar sögu. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum um sögu lands og þjóðar og varðveita þær til frambúðar. Miðstöðin leitast við að gera safnkostinn aðgengilegan með því að yfirfæra hann á stafrænt form og miðla á vefsíðu sinni. Miðstöðinni er ætlað að efla munnlega sögu sem aðferð í sagnfræði, veita fræðslu um söfnun og notkun munnlegra heimilda, skapa fræðimönnum aðstöðu til rannsókna og standa fyrir fræðilegri umræðu um munnlega sögu.
Til skamms tíma var Miðstöð munnlegrar sögu samstarfsvettvangur fjögurra aðila: Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og menntavísindasviðs Háskóla Íslands í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þann 15. mars 2012 var Miðstöðin sameinuð Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og varð sérstök eining á sviði varðveislu og stafrænnar endurgerðar. Hlutverk Miðstöðvarinnar breyttist ekki við sameininguna en í stað stjórnar kom fagráð sem tók þátt í stefnumótun og verkefnavali.
Frá 1. janúar 2018 var Miðstöðin ásamt Tónlistarsafni Íslands og Tón- og myndsafni sameinuð í Hljóð- og myndsafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Aðsetur Miðstöðvarinnar er á fjórðu hæð Þjóðarbókhlöðu og er hún opin virka daga á opnunartíma Þjóðarbókhlöðu til kl. 16:00.
Hlutverk Miðstöðvar munnlegrar sögu er að:
Vorið 2005 hófst samstarf Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK), Kennaraháskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um að koma á fót Miðstöð munnlegrar sögu. Þessar stofnanir voru einhuga um að brýnt væri að hefja átak í söfnun, varðveislu og miðlun munnlegra heimilda og auka veg munnlegrar sögu sem aðferðar í sagnfræði. Samstarf áðurgreindra stofnana var bundið með formlegum hætti með samstarfssamningi sem undirritaður var 7. júní 2006 og endurnýjaður í árslok sama ár.
Haustið 2006 voru ráðnir tveir starfsmenn, Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur, og Unnur María Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur, til að vinna að undirbúningi og starfsmótun Miðstöðvarinnar. Fyrstu árin var Miðstöðin rekin fyrir sjálfsaflafé og styrki meðal annars frá menntamálaráðuneyti, Alþingi og Háskóla Íslands.
Þegar Kennaraháskólinn sameinaðist Háskóla Íslands árið 2008 varð menntavísindasvið HÍ aðili að Miðstöð munnlegrar sögu. Þann 15. mars 2012 urðu tímamót í starfsemi Miðstöðvarinnar þegar hún var sameinuð Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni sem eining á sviði varðveislu og stafrænnar endurgerðar.