Um miðstöðina

Miðstöð munnlegrar sögu tók til starfa 26. janúar 2007. Miðstöðin er safn og rannsókna- og fræðslustofnun á sviði munnlegrar sögu. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum um sögu lands og þjóðar og varðveita þær til frambúðar. Miðstöðin leitast við að gera safnkostinn aðgengilegan með því að yfirfæra hann á stafrænt form og miðla honum á vefsíðu sinni. Miðstöðinni er ætlað að efla munnlega sögu sem aðferð í sagnfræði, veita fræðslu um söfnun og notkun munnlegra heimilda, skapa fræðimönnum aðstöðu til rannsókna og standa fyrir fræðilegri umræðu um munnlega sögu.

Til skamms tíma var Miðstöð munnlegrar sögu samstarfsvettvangur fjögurra aðila: Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og menntavísindasviðs Háskóla Íslands í samvinnu við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Þann 15. mars 2012 var Miðstöðin sameinuð Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og verður hún sérstök eining á sviði varðveislu og stafrænnar endurgerðar. Hlutverk Miðstöðvarinnar breyttist ekki við sameininguna en í stað stjórnar kemur fagráð sem tekur þátt í stefnumótun, verður ráðgefandi um verkefnaval og fagleg málefni og kemur að öflun sértekna til einstakra verkefna.

Aðsetur Miðstöðvarinnar er á fjórðu hæð í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni og er hún opin þriðjudaga til fimmtudaga kl. 13-16. Frekari upplýsingar veitir Gunnar Marel Hinriksson, í síma 525 5775. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið: munnlegsaga(hjá)landsbokasafn.is
Póstfang miðstöðvarinnar er:
Miðstöð munnlegrar sögu
Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni 
Arngrímsgötu 3
107 Reykjavík
Borgarbörn
Stríðsárin í Kaupmannahöfn
Fyrsti flóttamaðurinn á Íslandi
Kennsla í upphafi aldar