Starfsemi

Rannsóknir

Eitt af markmiðum Miðstöðvar munnlegrar sögu er að stuðla að aukinni notkun munnlegra heimilda í sagnfræðirannsóknum, skapa umræður um aðferðafræði munnlegrar sögu og aðstoða fræðimenn sem fást við munnlegar heimildir.

Starfsmaður Miðstöðvarinnar veitir fræðimönnum aðstoð og ráðleggingar við undirbúning og úrvinnslu viðtala. Auk þess geta fræðimenn fengið lánuð upptökutæki og annan búnað hjá Miðstöðinni í einstök verkefni. Fræðimenn eru hvattir til að leggja munnleg gögn í safn miðstöðvarinnar að lokinni rannsókn. Hægt að takmarka aðgang að slíku efni tímabundið vilji fræðimenn vernda rannsóknarniðurstöður sínar.

Starfsmaður Miðstöðvarinnar mun sinna rannsóknum eftir því sem svigrúm leyfir.

Söfnunarverkefni

Miðstöð munnlegrar sögu stendur að söfnun munnlegra heimilda ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Sem dæmi um slík verkefni má nefna Reykjavíkursögur en það var unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg á árunum 2007–2009, söfnun heimilda um komu flóttafólks frá Ungverjalandi til Íslands árið 1956 og Kreppusögur sem Miðstöðin fór af stað með í kjölfar bankahrunsins sem varð í október 2008. Loks má nefna viðtöl sem tekin voru við starfsfólk Þjóðarbókhlöðu um KÓVID-19 faraldurinn 2020.